Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun RSK um endurgreiðslu virðisaukaskatts

Stjórn Hagsmunafélags [A]
b.t. [X] gjaldkera

Reykjavík 22. desember 2015
Tilv.: FJR15060013/16.2.5


Efni: Kæra Hagsmunafélags [A] vegna synjunar ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Með tölvupósti, dags. 11. mars 2015, barst ráðuneytinu kæra [X] gjaldkera, f.h. Hagsmunafélags [A], á ákvörðun ríkisskattstjóra dags. 17. desember 2014, um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt beiðni kæranda þar um, sem móttekin var þann 27. nóvember 2014.

Málavextir og málsástæður
Þann 17. desember 2014 barst Hagsmunafélagi [A] bréf frá ríkisskattstjóra þar sem hafnað var beiðni félagsins um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við húseignina að[A], sbr. reikninga útgefna af[V], dagsettir 30. september 2013 og 31. október 2013, vegna ástandsskoðunar og gerð útboðsgagna. Í kæru Hagsmunafélagsins er óskað eftir skýringum á því hvers vegna ástandsskoðun núverandi húsnæðis og gerð útboðsgagna séu undanskilin endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhaldsvinnu eða endurbóta á húsnæði og þess óskað að höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts af reikningum [V], nr. 93431 og 92517 verði tekin til endurskoðunar.

Að mati talsmanns kæranda sé ástandsskoðun nauðsynlegur liður í hönnun, kanna þurfi raunverulegt ástand mannvirkisins þar sem gamlar teikningar sýni sjaldnast núverandi stöðu. Hvað útboðsgögn varði þá samanstandi þau að stærstum hluta af verklýsingu, útboðsteikningum og magntölum sem séu órjúfanlegur hluti hönnunar flestra meðalstórra og stærri verka. Sá hluti útboðsgagna sem teljist ekki til hönnunar sé einvörðungu útboðslýsing og samningsform sem með fylgja en þau séu hverfandi í samanburði við þá vinnu sem liggi að baki verklýsingu og magntölum. Þá bendir talsmaður kæranda á að í þeim útboðsgögnum sem gefin séu út fyrir hönd hins opinbera og fjalli um hönnun séu útboðsgögn einatt talin vera hluti af þjónustunni, þ.e. ritun verklýsingar og áætlun magntalna.

Hagsmunafélagið óskaði eftir því að fá að leggja fram ítarlegri gögn og rök í málinu væri rökstuðningur kæranda ekki talinn vera nægjanlegur.

Umsögn ríkisskattstjóra:
Umsögn ríkisskattstjóra barst ráðuneytinu dags. 4. desember 2015. Í umsögninni ítrekar ríkisskattstjóri það mat að staðfesta skuli úrskurð hans um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 17. desember 2014, með vísan til fyrri úrskurðar ráðuneytisins um sama deiluefni.

Forsendur og niðurstaða
Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Fram kemur að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Á grundvelli 42. gr. var sett reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Með lögum nr. 10/2009 var bráðabirgðaákvæði XV sett í lög nr. 50/1988, sem gildir á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2015. Samkvæmt ákvæðinu skal endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna. Jafnframt skal endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.

Lög nr. 10/2009 tóku breytingum í efnahags- og skattanefnd og voru lögin þar jafnframt látin taka til virðisaukaskatts af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna hönnunar og eftirlits með umræddum framkvæmdum. Með lögum nr. 19/2009 var gerð breyting á bráðabirgðaákvæði XV þar sem í stað orðanna ,,af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga“ í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins segir ,,af þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.“ Gerð var breyting á bráðabirgðaákvæði laga nr. 50/1988 af efnahags- og skattanefnd með lögum nr. 64/2009 þar sem felld voru út orðin ,,hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988. Í greinargerð með lögunum kemur fram að innan efnahags- og skattanefndar hafi komið fram þau sjónarmið að það skilyrði að um væri að ræða þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga væri ekki í samræmi við þann raunveruleika sem ýmsar starfsstéttir sérfræðinga í tækni- og hönnunargeiranum byggju við og væri það til þess fallið að raska samkeppni þeirra á milli.

Á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988 var sett reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði, auk annars húsnæðis sem alfarið er í eigu sveitarfélaga. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur jafnframt fram að endurgreiða skuli eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess sem og vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðisins.

Meginregla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er að greiða skuli virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands af öllum stigum viðskipta, sbr. 1. gr. laganna. Af því leiðir að virðisaukaskattur leggst endanlega á neytendur vara eða þjónustu. Ljóst er að samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum ber að skýra undanþágur frá skattalögum þröngri lögskýringu. Með vísan til þessa telur ráðuneytið að líta verði á ákvæði 2. mgr. 42. gr. og bráðabirgðaákvæði XV í lögum nr. 50/1988 sem undanþágu frá þeirri meginreglu að þeir aðilar sem ekki eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi beri að jafnaði þann virðisaukaskatt sem þeir greiða við kaup á vörum og þjónustu.

Eins og mál þetta liggur fyrir er farið fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna ástandsskoðunar og útboðs að [A]. Samkvæmt skýru orðalagi bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988, sbr. reglugerð nr. 440/2009, er aðeins heimilt að endurgreiða eigendum virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið af vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis sem og af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.

Ástandsskoðun fasteignar felur eðli málsins samkvæmt í sér að ástand fasteignar er skoðað og metið. Því er ekki um að ræða hönnun fasteignar sem felst m.a. í gerð grunnteikninga sérfræðinga o.fl. vegna eignarinnar. Jafnframt er ekki um eftirlit að ræða þar sem um skoðun er að ræða en ekki beint eftirlit með framkvæmdunum. Við gerð útboðsgagna og þegar umsjón með útboði fer fram getur á sama hátt ekki verið um að ræða hönnun þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar og því alls óljóst hvort eiginlegt viðhald og/eða endurbætur fari fram. Eðli máls samkvæmt getur útboð jafnframt ekki falið í sér að eftirlit eigi sér stað.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa yðar á þjónustu vegna ástandsskoðunar og útboðs.

Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 17. desember 2014, um að hafna beiðni Hagsmunarfélags [A] um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna ástandsskoðunar og útboðs, er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra










Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum